Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ég veit að ég á mikið inni

Eftir að allar græjurnar höfðu verið tengdar við mig og mér fór að líða betur ákváðu mamma og pabbi að fara heim og taka til það sem við þurfum að hafa hjá okkur á sjúkrahúsinu.  Þegar þau komu til baka létti þeim mikið því að þarna lá ég alsæl og hjalaði útí eitt.  Búið var að taka af mér grímuna í bili og var voru allar "tölur" í flottu lagi, hvort sem var um að ræða súrefnismettun eða annað.

Auðvitað er ekki öll hættan liðin hjá því vökvinn í lunga er enn til staðar og verður að reyna allt til að ná honum burt sem fyrst.  Gríman verður sett á mig með reglulegu millibili og er vonast til þess að það hjálpi við að hreinsa eins mikið og hægt er.

Hvort og hvernig þetta bakslag mun hafa áhrif á magaaðgerðina á eftir að koma í ljós en eitt er víst að ég ætla að ná mér fljótt eins og dagurinn hefur sýnt.  Ég veit að ég á svo mikið inni. 

 

Ef maður trúir þá getur margt gerst.  Við stóra systir höfum stundum hlustað á þetta og því langar mig að setja þennan tengil við þessa færslu fyrir aðra að njóta.

 


Komin á gjörgæslu

Síðustu tvo daga hef ég verið mjög slöpp og versnaði mikið í nótt og undir morgun.  Ég var komin með mjög þunga öndun og súrefnismettun orðin léleg.  Mamma og pabbi fóru með mig beint til Sigurlaugar og þaðan strax yfir á barnaspítalann.

Kom í ljós að ég er með vökva í öðru lunganu og hefur það fallið örlítið.  Er ég því komin á gjörgæsludeild og mun vera þar þar til öndunin hefur náð sér upp og lungun hafa hreinsast.  Blóðprufan er sem betur fer góð og sýndi enga sýkingu.  Samt á að setja mig á sýklalyf til að gera allt sem hægt er til að forðast að vökvinn sýki lungun.

Nú ligg ég fyrir með snúrur og slöngur við mig alla og er ég komin með sérstaka öndunargrímu til að ná lunganu "upp".  Mamma ætlar að vera hjá mér í nótt og pabbi ætlar sem að vera hjá mér á morgun.   Þannig verður það þar til ég fæ að koma með þeim aftur heim.


Er ég búin að toppa ?

Í gær fór ég í læknisskoðun og útkoman var svo sem ekkert sérstök.  Sem betur fer eru lungun hrein en öndunin er ekki alveg nógu góð.  Svo er það gamla sagan.  Ég er ekki að bæta nægilega við þyngdina.  Mamma og pabbi geta auðvitað stjórnað mjólkurgjöfinni en ég hef verið algjörlega listalaus á fasta fæðu síðustu daga.  Þá hef ég verið að kasta örlítið upp sem er eitthvað sem ég hef ekki gert áður.  Ekki hjálpar hitinn úti og inni en ekki er hægt að kenna honum alveg um.

Það er ofboðslega mikilvægt að ég nái að halda góðum krafti fram að magaaðgerðinni.  Til að gæta allrar varúðar sofum við mamma nú í stofunni en hún er mun kaldari yfir nóttina heldur en efri hæðin.  Þá er búið að bæta við "nuddið og bankið".  Næringargjöf aukin en um leið sett í minni skammta.

Mér finnst ofsalega gama að leika mér með sondusnúruna

Okkur hefur verið sagt að e.t.v. er ég búin að toppa vöxt á vöðvum.  Það á auðvitað eftir að koma í ljós en það er auðvitað eitthvað sem við verðum að geta búið okkur undir.  Síðustu daga hafa því ekki verið auðveldir ekki síst hjá mömmu og pabba.  Oft á dag koma upp hugsanir um hvort að þau séu að gera rétt, gera nóg og svo framvegis.  Ekki hefur hjálpað að pabbi hefur þurft að vera mikið í London og stóru systkini mín á Íslandi. 

Pabbi og ég á sjálfsmynd

Líklega hljómar þetta allt mjög erfitt.  Ég get svo sem líka sagt að þetta er allt mjög erfitt.  Það sem auðveldar þetta allt og gefur dögum ánægju er hve glöð og kát ég er og við erum staðráðin í að gefa ekkert eftir í baráttunni.

 


Nætursvefninn ekki verið góður

Það virðist allt vera annaðhvort eða.  Í síðustu færslu má sjá að nætursvefninn sé góður en svo breytast hlutirnir hratt. 

Síðustu tvær nætur hefur nætursvefninn minn ekki verið góður.  Ég hef verið óróleg og verið í einu svitabaði og öndunin er ekki búin að vera góð.  Ég hef verið með mikið slím bæði í nefgöngum og hálsi og hafa mamma og pabbi reynt sitt besta að "sjúga" mig með reglulegu millibili.  Það virðist samt ekki duga nægilega vel að þeirra mati.

Nývöknuð

Hitinn úti og inni hefur einhver áhrif og ekki hafa mamma og pabbi verið að "sjúga" úr mér yfir blá nóttina en e.t.v. er það eitthvað sem þarf að fara að gera.  Sigurlaug vinkona mín ætlar að koma seinnipartinn í dag og gera á mér alsherjar skoðun til að ganga úr skugga að ég sé ekki komin með nein mein í öndunarfærin.


Styttist í aðgerðina

Nú er ekki nema rúmlega vika þar til ég fer í magaaðgerðina.  Undanfarið hef ég verið nokkuð heilsugóð og vonandi held ég því áfram til að vera með góðan kraft fyrir sjúkrahús vistina.  Síðustu daga hefur nætursvefninn minn verið með besta móti og hef ég náð að sofa í allt að níu tíma án þess að vakna, þó svo verið sé að skipta um næringargjöf eða þegar mér er snúið reglulega yfir nóttina.

Vöðvakrafturinn minn hefur svo sem ekki mikið breyst nema að svo virðist sem ég é að missa kraft úr vinstri hendi sem þó hefur alltaf verið mun betri en sú hægri.  Á sama tíma er ég að ná mun meiri krafti í hægri höndina.

Úti á palli að kvöldi

Eftir stutt kuldakast er sumarið komið aftur og hef ég undafarið náð að sitja úti á palli á morgnana sem og seint á daginn en yfir blá daginn er ég bara inni við því að þá er hitinn of mikill fyrir mig.


Kerrumátun og kerfis-kallar

Í gær fór ég í mátun fyrir nýja kerru.  Verður hún útbúin líkt og stóllinn heima, það er sérstakur stuðningur verður gerður inn í hana til að halda vel við líkamann.  Þá þarf að laga stólinn örlítið því að ég hef verið að stækka og því þarf að laga stuðninginn með tilliti til þess.

Það hafa margir spurt okkur hvernig "kerfið" í Luxembourg er að þjónusta okkur í þessum miklu erfiðleikum.  Verður mér oft hugsað til færslu á heimasíðu Ragnars Emils þar sem kemur fram að Íslenska kerfið sé ekki betri en svo að SMA sjúklingur er langveikur eða fatlaður en ekki bæði.  Hér er svo sem ekki gerður greinarmunur á því en ég verð að segja að kerfið hér er mjög gott og aðstoðar mikið.  Stóll, kerra, bílstóll svo ekki sé talað um allar "lækna" græjurnar heima er okkur skaffað nær endurgjaldslaust.  Það er ótrúlegur léttir að þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim hluta.

Ánægjan í fyrirrúmi

Það að vera með SMA veikt barn á heimilinu er mjög erfitt og mikil vinna.  Ekki bara yfir blá daginn heldur næturnar líka því að það þarf að snúa mér nokkrum sinnum yfir nóttina.  Mamma og pabbi eru auðvitað stanslaust að hugsa um mig og/eða með hugann við mig.  Daglega koma upp spurningar eins og erum við að gera nóg fyrir mig, er þetta rangt sem við erum að gera í dag og svo framvegis. 

Hver dagur er mikilvægur og merkilegur og því skiptir mestu máli að í lok dags geti allir farið sáttir að sofa og vakna sáttir að nýju til að takast á við vandamál næsta dags.

 


Það er fátt í kotinu

Systkini mín eru farin til Íslands í sumarfrí.  Af persónulegum ástæðum þurfti Sigga pera líka að fara til Íslands svo nú er ég bara ein í kotinu með mömmu og pabba.

Á leikteppinu á meðan ég fæ næringu í gegnum sonduna 

Ég er búin að vera nokkuð hress að undanförnu nema síðustu tvo daga fékk ég hita og var með uppköst.  Það er ekki gott að segja hvers vegna en líklega hefur sondan verið að pirra mig eitthvað því að um leið og við skiptum um hana þá hef ég verið mun betri.

Þar sem ég sef fast og er ekki að hreyfa mig mikið í svefni, þá hafa moskítóflugurnar átt auðvelt með að stinga mig og er ég núna með fjórar ljótar stungur í andlitinu.  Nú sef ég undir góðu neti og vonandi láta þær mig í friði framvegis. 


Magahnappur og stærðfræði

Við mamma og pabbi áttum fund með skurðlækninum í dag.  Var ákveðið að ég fengi magahnapp í fyrstu vikunni í Ágúst.  Útskýrði hann hvernig aðgerðin færi fram og hvernig hnappurinn mun virka.

Ánægð með litla bangsann minn 

Verður gert lítið gat á magann og settur hnappur á hann sem leiðir beint í maga.  Þetta er svo sem einfaldur hlutur sem liggur utaná maganum sem lítill hnappur og helst inni í maga á örlítilli blöðru.  Mun ég þá fá næringu beint í maga í stað þess að notast við slöngu í gegnum nefið eins og ég hef notað undanfarið.

Þegar hnappurinn verður settur í mig verður magaopið minnkað því að með magahnappinum er hætta á bakflæði og fyrir mig, bakflæði getur leitt til þess að magasýrur renni í lungun mín og hætta er á alvarlegri sýkingu.

Bangsi litli að fá smá koss

Við gerum okkur grein fyrir að aðgerðin er ekki hættulaus og getur verið mér mjög erfið.  Læknirinn telur að ég muni þurfa að vera á gjörgæslu í allt að tvo daga á eftir aðgerðina og verði mér haldið sofandi í einhvern tíma á eftir og vakin mjög hægt.  Auðvitað er mjög mikilvægt að ég sé hress og sterk fyrir aðgerðin og ef ég held áfram að sýna mitt besta eins og undanfarið, þá er ekkert að hafa áhyggjur af.

Edda Kristín að hjálpa mér með morgunmatinn

Veikindi mín hafa auðvitað haft mikil áhrif á heimilislífið og hafa systkini mín sýnt ótrúlega mikinn styrk og stuðning.  Eftir tvær vikur fá þau loksins kærkomið skólafrí og ætla í framhaldinu að fara í frí til Íslands í nokkrar vikur til að hitta ættingja og vini.  Það er gaman að segja frá því að Edda Kristín tók þátt, ásamt nokkrum í bekknum sínum þátt í stærðfræðikeppni Luxembourgar og náðu þau fyrsta sæti í sínum árgangi.  Til hamingju stóra systir !!!


Um mig

Elva Björg Egilsdóttir
Elva Björg Egilsdóttir

fæddist í Luxembourg 30. Nóvember 2007.  Í Febrúar 2008 greindist hún með SMA-1 sjúkdóminn.  Elva Björg lést í Luxembourg 9. Janúar 2010.

Elva Björg Foundation:

Account:  0313-13-300192

KT: 301107-3660

IBAN IS44 0313 1330 0192 3011 0736 60

 

SWIFT: ESJAISRE

 

Reikningur í Luxembourg: í Dexia Banka

v.Reynisson"ref.Elva Björg"

IBAN LU66 0021 1933 1189 2800

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband